taekniblogg-megapixlar

Við fáum oft ýmsar tæknilegar spurningar og ákváðum að skella bara í nokkrar færslur hér á blogginu hjá okkur til að útskýra ýmis tæknileg atriði sem fólk pælir í. Í dag eru það megapixlar sem við tökum fyrir.

Hvað eru þessir megapixlar?

Þetta er mæli eining sem er reiknuð út með því að margfalda hæð og breidd myndflögunnar (í pixlum) í viðkomandi myndavél. Mjög algeng tala í dag er 24MP, þær myndir sem sú flaga myndar er oftast 6000 pixlar að breidd og 4000 pixlar að hæð. Með því að margfalda 6000 með 4000 fáum við út 24 milljónir, sem þýðir þá að viðkomandi flaga er þá 24MP, þar sem mega merkir milljón.

Hvað þýðir þetta fyrir gæði mynda?

Í raun, helling. Því fleirri pixlar sem eru í mynd, því nákvæmari og skarpari getur hún verið. Þetta þýðir þó ekki að gæðin verði betri, það fer líka eftir raun stærð myndflögunnar í mm talið, því að því minni sem flatarmál flögunnar er í mm því minni eru pixlarnir á flögunni. Vandamálið við of litla pixla er að þeir geta leitt til mikils suðs (en. noise) á myndum ef þær eru teknar í lítilli birtu. Því stærri sem pixlarnir eru á myndflögunni því meiri birtu ná þeir að safna miðað við minni pixla. Því meiri birta, því minna suð.

Á að eltast við hæstu MP tölur?

Sensor size chartNei, alls ekki. Það þarf að vega og meta aðstæður hjá hverjum og einum og sjá hverjar þarfir eru. Sony var td. að kynna núna rétt um daginn nýja Sony A7Riv, fjórða kynslóðin af A7R myndavélinni þeirra. R línan hjá þeim þýðir “Resolution”. Sú vél er komin með 61MP myndflögu, vélin fyrir það er með 42MP myndflögu. Svo var Samsung að tilkynna að þeir hefðu hafið framleiðslu á 108MP myndflögu fyrir síma, en ef við berum saman stærðirnar á myndflögunum úr þessum tveimur tækjum þá er myndflagan í símanum dvergvaxin í stærð við hliðina á myndflögunni úr Sony myndavélinni.
Sony myndflagan er það sem kallast “Full frame” myndflaga, þeas að hún er jafn stór og 35mm filmurammi úr filmudögum ljósmyndunar (sem er nú að snúa aftur!), en myndflagan frá Samsung er 1/1.33″ að stærð. Til að sjá stærðarmunin getur þú skoðað myndina hér til hægri, hægt er að smella á til að fá hana stærri, en þar er 1/1.33″ reyndar ekki inn á listanum þar sem sú stærð þótti ekki nógu stór til að birta á henni.

En tæknin er alltaf að breytast og bæta sig, það er ekki langt síðan að 8MP þótti toppurinn í stóru myndavélunum.

Smá mínus sem þarf að hugsa um

Það er eitt verulega slæmt við að vera með myndavél sem er með myndflögu með hárri megapixla tölu, það eru skrárnar sem þú þarft að vinna með eftir á. Því fleirri megapixlar sem eru í myndinni, því stærri verður skráin.
Tökum sem dæmi Sony A7Riii sem við notum dags daglega. Sú myndavél er með 41MP myndflögu og getur tekið myndir í RAW Uncompressed, RAW Compressed og JPG. Eins og sést á meðfylgjandi mynd þá erum við með sömu uppsetningu á myndavélinni, þrjár myndir teknar og allar í mismunandi formi.

SkráarstærðirÁ myndinni getur þú séð í dálknum til hægri stærðirnar á skránum. Sú sem er uncompressed RAW er um 84MB að stærð, compressed RAW er um 42MB að stærð og svo minnst er JPG um 20MB að stærð. Ég ætla ekki að fara í muninum á milli RAW og JPG, en ég get þó sagt að JPG er það sem flestir nota sem ekki vilja vinna myndirnar eftir á. RAW þarf að fara með í “framköllun”, þar sem þær eru digital negatívur ef svo mætti að orði komast. Þær þarf að vinna eftir á og exporta síðan sem JPG eða álíka.

Það segir sig sjálft að ef við ímyndum okkur td. að við séum að mynda brúðkaup með þessari myndavél, við tökum í compressed RAW forminu því það er ekki plássfrekast en það gefur okkur svigrúm á að geta unnið myndir og lagað þær betur ef eitthvað klikkar. Í brúðkaupinu tökum við kannski 1400 myndir yfir daginn. Þá þurfum við að vera með rétt undir 60GB laus á hörðum disk hjá okkur bara til að lesa myndirnar af myndavélinni og inn á tölvuna.

Svo tekur við vinnslan sjálf og það gengur hægt ef þú ert ekki með nægilega öfluga tölvu til þess.

Samantekt

Það er gott að vita hvað megapixlar eru, hvernig þeir eru reiknaðir og hvernig þetta allt virkar. Ef þú ert að skoða eldri, notaðar myndavélar þá getur maður oft giskað á aldur myndavélarinnar út frá megapixla tölunni. Það fer samt alltaf eftir notkun, getu og kunnáttu ljósmyndarans hvernig útkoman er nýtt. Fyrir marga eru eldri 8MP myndflögur enn feikinóg, fyrir aðra þá þurfa þeir bara að hafa það allra stærsta og besta.

Spurningin er bara, hvar lendir þú á kúrvunni?