Mánudagsviðtalið

Í mánudagsviðtalinu þessa vikuna tökum við fyrir næsta aðilann sem myndar þriðjung af CREO, hann Axel Rafn.

Hver er Axel?

Axel Portrait 1x1Vá, hvar skal byrja?

Einfaldast er að lýsa mér sem stærðarinnar nörd sem er með gríðarlega og eldheita ástríðu á ljósmyndun.
Ég hef starfað núna í að ganga 7 ár sem ljósmyndari hér á landi, lærði ljósmyndun bæði á listabraut hjá Menntaskólanum á Tröllaskaga og svo hjá New York Institute of Photography.

Ég er tveggja barna faðir, en börnin eru búsett í Noregi. Ég er trúlofaður yndislegri konu og ég bý á Akranesi þangað sem ég flutti fyrir rúmu ári síðan.

Á hvað leggur þú áherslu í þínu starfi hjá CREO?

Fyrst og fremst vil ég að fólk njóti sín, nái að slaka á og endi með myndir sem ekki bara líta vel út heldur segja sögu af því tímabili í ævi fólks sem átti sér stað þegar þær voru teknar.

Ég reyni að fylgjast vel með nýjungum í tækni og tísku ljósmyndunar og les mikið um hvernig ég get bætt mig sem ljósmyndari og sem þjónustuveitandi.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Já, þegar stórt er spurt.. Er mikið um svör!

Áhugamál mín eru ýmisleg, ljósmyndun er meira ástríða en áhugamál þannig að við skulum líta framhjá henni í bili.
Tölvur og tækni eru og hafa alltaf verið gríðarlega hátt á lista hjá mér, ég elska einnig að ferðast og hálendi Íslands á hjarta mitt frá því að ég fór fyrst þangað upp eftir.

Ég hef ekki verið of duglegur við það undanfarin ár eða áratugi, en mér finnst verulega gaman að lesa. Ég er að taka mig á núna og er að lesa meira í hverjum mánuði núna en heilu ári áður fyrr.

Hver er draumurinn?

Lifa við það sem ég elska, að ljósmynda fólk og taka þátt í þeirra dögum. En ef við lítum á heiminn eins og hann leggur sig er það bara að fólk hætti eða allavega minnki hatur og lygar. Heimurinn væri strax skárri fyrir vikið.

Tæknimál, hvað notar þú?

Ég er græjukarl dauðans og er með allt of mikið af tækjum og tólum verður að segjast..

Daglega tölvan er borðvél sem ég vinn allar myndir í, 3x 24″ skjáir, Wacom teiknibretti og laser mús fyrir nákvæmni. Daglegi laptop’inn er MacBook Pro sem ég nota einna mest í skrif, lestur á bókum og námi almennt. Síminn er iPhone 8+ af því að það var síminn með bestu myndavélina sem fannst á markaðnum, en ég hafði einnig ætlað mér að nota hann til að nota Facetime grimmt í stað Skype með stráknum mínum, en svo hætti hann að nota iPhone og fór í Android aftur!

Eitthvað að lokum?

Já, ég skora á hvern sem les þetta að bóka sér töku hjá okkur og kíkja til okkar í stúdíóið!